Norðurlandaþjóðirnar standa sig að venju best í heiminum hvað varðar jafnrétti kynjanna samkvæmt árlegri jafnréttisvísitölu, sem Alþjóða efnahagsstofnunin, World Economic Forum, reiknar út. Ísland er í 4. sæti eins og í fyrra en á árinu hafa orðið framfarir í jafnréttismálum í öllum ríkjunum, sem eru í 20 efstu sætunum á lista stofnunarinnar.
Eins og í fyrra er Svíþjóð í 1. sæti, Noregur í 2. sæti og Finnland í 3. sæti. Nýja-Sjáland hækkaði um 2 sæti og er í því 5. og Filippseyjar eru í 6. sæti annað árið í röð. Þýskaland féll úr 5. sæti í það sjöunda en í sætum 8-10 eru Danir, Írar og Spánverjar.
Í neðstu sætum á listanum yfir 128 ríki eru Jemen, Tsjad, Pakistan, Nepal og Sádi-Arabía.
Svíar brúað um 80% af bilinu milli kynjanna að mati WEF. Við gerð könnunarinnar er athugað hversu virkar konur eru í fjármálageiranum og hversu mörg tækifæri þeim bjóðast þar. Einnig er heilsa og langlífi kynjanna athugað, menntun þeirra borin saman og þátttaka í stjórnmálum.