Öryrkjabandalag Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er furðu og hneykslan á yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands frá í dag. Þar sagði ASÍ, að formaður Öryrkjabandalagsins hefði verið með rangfærslur og útúrsnúninga á þeim hugmyndum sem ASÍ og SA hafa verið með til umfjöllunar undanfarið um veikinda- og slysarétt.
Öryrkjabandalagið segir að ASÍ geri enga tilraun til að útskýra hvað hér er átt við. Þá segi í yfirlýsingu ASÍ að formaður Öryrkjabandalagsins hafi gengið svo langt að leggja Alþýðusambandinu til tilteknar skoðanir og óskað síðan eftir lögfræðiáliti á þessum tilbúnu skoðunum. Segist ÖBÍ skora á Alþýðusamband Íslands að upplýsa nákvæmlega í hverju misskilningur ÖBÍ er fólginn og við hvað sé átt með tilbúnum skoðunum formanns ÖBÍ.
„ÖBÍ harmar að ASÍ skuli í yfirlýsingu sinni fara fram með gífuryrðum og ómálefnalegum fullyrðingum sem eiga ekki við nein rök að styðjast. ÖBÍ ætlar hins vegar ekki að falla í þann pytt að taka upp persónulegar árásir á einstaka forystumenn Alþýðusambandsins," segir í yfirlýsingu Öryrkjabandalagsins.