Með því að beina umferðarþunganum út úr Reykjavík og láta umferðina fara milli eyjanna úti á sundunum í rörum úr áli og plasti, plægðum ofan í hafsbotninn, myndu lífsgæði tugþúsunda Reykvíkinga batna verulega, að mati Hrafns Gunnlaugssonar kvikmyndaleikstjóra.
Hrafn vill færa borgina út á sundin og um leið leysa þann vanda sem umferðarþunginn veldur. „Fari umferðin um eyjarnar myndast hringleið út úr borginni að vestan út í Akurey, yfir í Engey, meðfram Viðey og loks yfir Gufunes og upp á Kjalarnes. Það hefði væntanlega í för með sér að komast mætti hjá því að reisa þau mislægu gatnamót sem eru í undirbúningi á leiðinni út úr borginni upp yfir Ártúnsbrekkuna. Vandinn er hins vegar sá að um leið og ein gatnamót eru orðin mislæg myndast nýr tappi á Ártúnsbrekkuleiðinni," bendir Hrafn á.
Hrafn sér fyrir sér að lögð verði tvö rör sitt í hvora áttina og þegar þau verði ekki lengur nothæf verði þeim lokað.