Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar 2007 voru afhent við athöfn á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Hvalaskoðunarfyrirtækið Norðursigling, Húsavík hlaut verðlaunin að þessu sinni en í fréttatilkynningu frá SAF segir að Norðursigling hafi með sterkri stjórn, skýrri sýn og fórnfúsu starfi stuðlað að uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni á eftirbreytniverðan hátt.
Í rökstuðningi dómnefndarinnar segir að Norðursigling, sem nú hefur starfað í 13 sumur, hafi frá upphafi staðið fyrir samfelldri nýsköpun og vöruþróun í þeirri viðleitni fyrirtækisins að gera hvalaskoðun að eftirsóknarverðri afþreyingu á Íslandi.