Íslensk málnefnd segir, að íslenskt samfélag hafi tekið miklum breytingum á skömmum tíma en staða tungunnar sé sterk og sköpunarmáttur hennar mikill. Íslenska hafi því alla burði til að verða samskiptamálið í fjölmenningarsamfélagi á Íslandi og að því ætti að stefna.
Í ályktuninni er lögð áhersla á að lagaleg staða íslenskunnar verði tryggð. Þá segist nefndin álíta mikilvægt, að meginþorri starfsmanna leikskóla og grunnskóla hafi íslensku að móðurmáli. Einnig telur nefndin óráðlegt og óþarft að við íslenska framhaldsskóla verði almennt stofnaðar námsbrautir þar sem kennt er á öðru máli en íslensku. Traust þekking á móðurmálinu sé besti grunnurinn undir frekara málanám og störf á alþjóðlegum vettvangi.
Þá hvetur Íslensk málnefnd íslenska háskóla til að tryggja stöðu tungunnar í fræðasamfélaginu. Það geri þeir best með því að hvika hvergi frá því að kenna fyrst og fremst á íslensku.
Einnig hvetur nefndin forráðamenn allra íslenskra fyrirtækja til að bjóða þeim starfsmönnum sínum, sem ekki tala íslensku, vandaða íslenskukennslu í vinnutíma. Kennsla í íslensku ætti að vera sjálfsagður þáttur í þjálfun nýrra starfsmanna sem ekki tala íslensku.