Kastljósið svarar gagnrýni ríkislögreglustjóra

Umsjónamenn Kastljóss Sjónvarpsins hafa svarað fréttatilkynningu sem embætti saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra sendi frá sér gær þar sem umfjöllun Kastljóss þann 24. október er gagnrýnd. Þáttagerðarmennirnir vísa gagnrýni embættis ríkislögreglustjóra til föðurhúsanna og svara henni lið fyrir lið.

Kastljós tekur eftirfarandi fram:
Úttekt Kastljóss er byggð á svörum sem þættinum bárust frá embætti ríkislögreglustjóra. Einnig á svörum saksóknara efnahagsbrotadeildarinnar. Í fyrirspurn við upphaf skoðunar Kastljóss á málefninu var þannig spurt:

„Í hversu mörgum opinberum málum fyrir Hæstarétti og héraðsdómum frá og með 2002 hefur a) dráttur á máli við rannsókn lögreglu eða annarra opinbera aðila leitt til sýknu (þrátt fyrir niðurstöðu um sekt) eða skilorðsbindingar dóms (að öllu leyti eða hluta)?"

Svör bárust frá starfsmanni ríkislögreglustjóra með lista yfir 18 dóma þar sem dómarar gerðu athugasemdir við tafir á rannsókn málanna. Við nánari athugun Kastljóss með leit á heimasíðu dómstóla kom svo í ljós eitt mál til viðbótar sem starfsmanninum virtist hafa yfirsést og var það staðfest af honum.

Saksóknari gerir athugasemdir við umfjöllun Kastljóss um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í júlí 2002. Saksóknari segir að Kastljós fari með rangt mál þegar sagt er: „Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í júlí 2002 eru til dæmis gerðar athugasemdir við að rannsókn hafi tekið 6 ár og því slapp sakborningur við ársfangelsi vegna tafa." Vegna þessa vill Kastljós benda á sjálfan dóminn. Þar segir „Ákærði hefur verið undir rannsókn eða ákæru nú í rúmlega sex ár. Blasir við að þessi tími er a.m.k. fjórum árum of langur. Vegna þessa verður ekki undan því vikist að skilorðsbinda refsinguna." Af þessu er augljóst að fullyrðing Kastljóss er rétt. Sakborningur slapp við að sitja í fangelsi vegna tafa við rannsókn.

Dómarar gerðu athugasemdir við tafir í öllum málunum nítján. Það er mikilvægt að undirstrika að það eru orð dómaranna sjálfra sem liggja til grundvallar. Þeir vísa ekki til dómavenju í skattalagabrotum, heldur með beinum hætti til atriða til refsihækkunar eða refsilækkunar í tilteknum málum sem dómarar einir meta. Kastljós fullyrti aldrei að í öllum þeim nítján málum sem voru til umfjöllunar hafi hinir ákærðu sloppið við refsingu. Einnig er þess skýrt og greinilega getið í umfjöllun Kastljóss að þar sem tafir höfðu áhrif á refsingu gat aldur sakborninga og brotaferill einnig haft áhrif.

Þá skal skýrt tekið fram að Kastljós gaf ekki til kynna að tiltekin umfangsmikil mál hefðu tafist fram úr hófi hjá deildinni, einsog saksóknari heldur fram. Kastljós sagði hinsvegar „að deildin hefði legið undir ámæli vegna umfangsmikilla mála sem hefðu tekið langan tíma í rannsókn og ekki fengið þann framgang fyrir dómstólum sem ákærur í þeim bentu til." Á þessu tvennu er mikill munur. Ummæli saksóknarans sjálfs í umfjölluninni staðfesta þessi orð Kastljóss. Þar segir hann: „Þetta eru mál, til dæmis sem þú nefnir og fleiri til, sem hafa tekið gríðarlega vinnuafl í langan tíma sem þá hefur komið niður á vinnslu annarra mála."

Saksóknari efnahagsbrota segir í fréttatilkynningunni að „fullyrðing" Kastljóss þar sem sagt er frá því að hlutfall dóma sem sætt hafa aðfinnslum væri ekki eins hátt í tilfellum annarra lögregluembætta og efnahagsbrotadeildar, sé röng. Þessi orð hans eru ekki studd neinum rökum enda gat Kastljóss þess sérstaklega að leit á heimasíðum dómstóla í þessu efni væri ekki tæmandi en gæfi þó tilkynna að hlutfallið væri hærra hjá efnahagsbrotadeild. Það er jafnframt ekki rétt að í umfjöllun Kastljóss hafi ekki komið fram að efnahagsbrotadeild rannsakaði „öll erfiðustu og umfangsmestu fjármunabrot og brot á sviði atvinnurekstrar." Í upphafi umfjöllunarinnar er beinlínis sagt að við stofnun efnahagsbrotadeildar hafi „hlutverk hennar verið að fara með rannsókn stærri efnahagsmála í landinu."

Hvað varðar aðfinnslur saksóknara efnahagsbrotadeildar við ummæli skattrannsóknarstjóra sem höfð voru eftir henni sjálfri sem vill Kastljós taka fram að það svarar ekki fyrir skattrannsóknarstjóra.

Að lokum lýsir Kastljós undrun sinni á viðbrögðum saksóknara efnahagsbrota við umfjölluninni. Orð hans sjálfs í umfjölluninni styðja efnisatriði hennar. umfjöllunin byggðist auk þess á gögnum frá efnahagsbrotadeildinni sjálfri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka