Leikskólagjöld hækka um 2,5%

mbl.is/Árni Torfason

Drög að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar gera ráð fyrir að leikskólagjöld hækki um 2,5% 1. janúar nk. og að kostnaður foreldra vegna fæðis leikskólabarna hækki um 1.350 krónur. Meirihluti leikskólaráðs samþykkti hins vegar á fundi ráðsins á miðvikudag að leggja til við borgarráð að foreldrar verði ekki látnir taka á sig fæðisgjaldshækkunina og Sigrún Elsa Smáradóttir, formaður leikskólaráðs, segir líklegt að á það verði fallist. Þetta þýðir viðbótarkostnað fyrir borgarsjóð umfram drög að fjárhagsáætlun sem nemur 91,4 milljónum króna.

Sigrún Elsa segir að fjárhagsáætlunin hafi verið undirbúin í tíð fyrri meirihluta. Nýr meirihluti geti ekki endurgert fjárhagsáætlun frá grunni á þessum tímapunkti. Þá bendir hún á að 2,5% hækkun leikskólagjalda tengist verðlagsbreytingum en raunar sé verðbólga mun meiri.

Flokkarnir sem standa að meirihlutanum í Reykjavík hafa flestir lýst yfir vilja til að gera leikskólann gjaldfrjálsan og Sigrún Elsa segir að það sé vissulega draumur manna, að það geti orðið. Ekki sé hins vegar raunhæft að ætla að sá meirihluti sem nú sé tekinn við geti náð því markmiði á þeim tveimur og hálfa ári sem hann hafi til stefnu til næstu kosninga. Fyrri meirihluti hafi tekið skuldbindandi ákvarðanir sem nýr meirihluti hljóti að taka mið af, menn byrji ekki með hreint borð.

Hækkun á fæðisgjaldi sem drög að fjárhagsáætlun gerðu ráð fyrir er að hluta til tilkomin vegna hækkunar á hráefniskostnaði samfara átaki í gæðum, að því er Sigrún Elsa fullyrðir en þó átti hlutur foreldra að aukast um 500 krónur. Það verður þó ekki verði tillögur meirihluta leikskólaráðs samþykktar, um að borgarsjóður taki 1.350 krónurnar á sig.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert