eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
HUGMYNDIR um að Reykjanesbær kaupi meirihluta hlutafjár í Hitaveitu Suðurnesja ganga ekki upp að mati Júlíusar Jónssonar, forstjóra hitaveitunnar. Rekstur fyrirtækisins stendur ekki undir vaxtagreiðslum hvað þá afborgunum af slíkri fjárfestingu að hans sögn.
Þetta kom fram hjá Júlíusi á fundi sem sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ héldu í Njarðvíkurskóla í gærkvöldi. Um 200 manns sátu fundinn.
Árni Sigfússon bæjarstjóri lagði á það áherslu á fundinum að Reykjanesbær hefði öll tök á málefnum hitaveitunnar og lagði áherslu á að umræðan færi ekki út og suður. Hann sagði frá samningsmarkmiðum Reykjanesbæjar vegna hugsanlegra breytinga á eignarhaldi hitaveitunnar og sagði að þau miðuðu öll að því að halda og efla starfsemi hitaveitunnar á Suðurnesjum.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysir Green Energy, sagði frá aðkomu fyrirtækisins að Hitaveitu Suðurnesja og starfsemi GGE.