Leysiaðgerðir til að laga nærsýni og fjarsýni, svokallaðar Lasik-aðgerðir sem um 10 þúsund manns hafa farið í hér á landi, eru allt að 200 þúsund krónum ódýrari í Tallinn í Eistlandi en á Íslandi. Í Tallinn kostar slík aðgerð rúmlega 120 þúsund krónur fyrir bæði augun. Hér kostar aðgerðin 285 til 315 þúsund kr. hjá LaserSjón og 285 til 310 þúsund hjá Sjónlagi. Verð á Lasik-aðgerðum í nágrannalöndunum er svipað og hér og eru Norðmenn og Svíar því farnir að flykkjast til Tallinn til að láta laga sjónina, að því er greint er frá á vefsíðu norska blaðsins Aftenposten.
Eiríkur Þorgeirsson, augnlæknir hjá LaserSjón, kveðst ekki hafa orðið var við að fólk fari austur í Lasik-aðgerðir. „Hins vegar er talsvert um að fólk frá Norðurlöndum, Lúxemborg, Bretlandi og Færeyjum komi hingað í aðgerðir." Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir hjá Sjónlagi, segir mikilvægt að fylgjast með sjúklingum í sex mánuði eftir Lasik-aðgerð.
Hann veit aðeins um örfáa sem hafa farið utan í slíka aðgerð. ,,Ég myndi aldrei ráðleggja fólki að fara utan í aðgerð nema á stað sem ég þekki mjög vel til," segir hann.