Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað sendibílsstjóra af ákæru fyrir að vera ekki með öryggisbeltið spennt við akstur. Vísaði dómurinn til reglugerðarákvæðis um að atvinnubílstjórar þurfi ekki að vera með öryggisbelti spennt þar sem hraði er jafnan lítill og fara þarf úr og í ökutæki með stuttu millibili.
Lögreglan í Vestmannaeyjum stöðvaði ferð bílstjórans á Friðarhafnarbryggju eftir að hafa fylgst með akstri hans. Ökumaðurinn viðurkenndi að hafa ekki notað öryggisbelti við aksturinn en hann ynni við það að aka út vörum í fyrirtæki í bænum og því hefði hann leyfi samkvæmt reglugerð um undanþágu frá notkun öryggisbeltis að aka án þess að vera spenntur í belti. Sagðist hann túlka umferðalögin á þennan veg og einnig starfsfélagar sínir.
Dómurinn vísaði til reglugerðar um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum, sem tók gildi í apríl s.l. þar sem segir, að ekki sé skylt að nota öryggisbelti í ökutæki þegar ekið er í atvinnuskyni þar sem hraði er jafnan lítill og fara þarf úr og í ökutæki með stuttu millibili.
Dómurinn segir, að akstursleið bílstjórans í umrætt sinn hafi verið samtals 2910 metrar og námu vegalengdir þær, bílstjórinn ók þegar hann sinnti þessum erindum sínum, allt frá 30 metrum til 1000 metra.
Segir dómurinn að eins og aðstæðum sé háttað sé ekki annað í ljós leitt en að akstur bílstjórans hafi verið með þeim hætti að framangreindum skilyrðum hafi öllum verið fullnægt.