Úrskurður um farbann felldur úr gildi

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Austurlands umerlendur maður, sem tengist starfsmannaleigunni NCL og GT verktökum, sæti farbanni þar til í dag. Maðurinn var upphaflega úrskurðaður í farbann til 3. nóvember. Lögregla krafðist þess að farbannið yrði framlengt til 12. nóvember en héraðsdómur féllst á að framlengja farbannið til 9. nóvember.

Maðurinn er m.a. grunaður um að hafa boðið erlendum starfsmönnum fyrirtækjanna fé ef þeir færu tafarlaust úr landi og gæfu engar frekari skýrslur hjá lögreglu en mennirnir unnu við verkefni tengd Kárahnjúkavirkjun.

Þá var fullyrt, að maðurinn og félagi hans hafi hótað því að sverta nöfn starfsmannanna gagnvart öðrum fyrirtækjum hérlendis sem og erlendis. Í kjölfar þessa yfirgáfu átta af starfsmönnunum landið.

Lögreglan sagði í greinargerð þar sem farið var fram á að farbannið yrði framlengt, að maðurinn hafi verið yfirheyrður en yfirheyrslunum sé ekki lokið og enn eigi eftir að bera undir hann framburði fyrirsvarsmanna og eins starfsmanns GT verktaka.

Hæstiréttur segir hins vegar, að lögreglan hafi ekki skýrt nægilega hvers vegna sá tími hafi ekki dugað, sem lá til grundvallar upphaflegri farbannskröfu. Sé því ekki unnt að verða við kröfu um frekari farmlengingu farbannsins á þessum forsendum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert