Það stefnir í að foreldrasamtökin Vímulaus æska verði húsnæðislaus frá og með næstu áramótum. Í húsnæði sínu, hinu svokallaða Foreldrahúsi að Vonarstræti 4, hafa þau undanfarin ár aðstoðað mörg þúsund börn við að hætta vímuefnaneyslu, og haldið forvarnarnámskeið fyrir börn. Nú stendur til að rífa húsnæðið til að byggja á lóðinni hótel.
„Við sjáum ekki marga möguleika í stöðunni. Við höfum fundið húsnæði sem við gætum notað, en það er allt svo dýrt að við höfum alls ekki efni á því," segir Elísa Wiium, framkvæmdastjóri Foreldrahúss.
Vímulaus æska er ekki á fjárlögum. Hins vegar hafa samtökin fengið 10,5 milljónir á ári frá ríkinu og 2 milljónir frá Reykjavíkurborg. Elísa segir að peningarnir dugi skammt.
„Hér vinna 22 einstaklingar, nánast allir sérfræðingar. Nú þurfum við að finna okkur húsnæði til leigu sem þarf að vera allt að 400 fermetrar til að geta hýst með góðu móti þá starfsemi sem hefur verið í Foreldrahúsinu. En slíkt húsnæði kostar mörg hundruð þúsund á mánuði, þannig að við erum í mjög erfiðri stöðu."