Lögreglan á að hefja rannsóknir á Netinu í leit að barnaníðingum. Forvirkar aðgerðir lögreglu eru nauðsynlegar, þar sem fórnarlömb níðinganna kæra þá iðulega ekki fyrr en það er of seint. Þetta er skoðun Gnár Guðjónsdóttur, fulltrúa í alþjóðadeild ríkislögreglustjóra. Hún segir slíkar aðferðir ekki hafa verið stundaðar hér á landi.
Gná, sem kynnti sér rannsóknir FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, hefur lagt fram tillögur um nýjar starfsaðferðir hér á landi sem hún segir nú skoðaðar af alvöru.
Stefna FBI í málaflokknum er afar áhugaverð, að mati Gnár. ,,Menn eru hættir að líta til hliðar þegar þennan málaflokk ber á góma. Áður fengu menn hroll og töluðu um hversu ógeðslegt þetta væri sem það vissulega er. Það var gott að vera í kringum starfsmenn FBI sem tala ekki svoleiðis og hika ekki."
Gná greinir jafnframt frá því að það sé mat manna að auðvelt aðgengi að barnaklámi auki eftirspurnina og búi til barnaníðinga. Þeir sem handteknir hafa verið hér á landi með barnaklám í vörslu sinni hafa viðurkennt að aðgengið hafi haft áhrif á þá.
Rannsókn meðal fanga í Bandaríkjunum leiddi í ljós að 85 prósent þeirra sem dæmdir hafa verið vegna vörslu barnakláms viðurkenna að hafa beitt börn kynferðislegu ofbeldi.
,,Þetta gefur ákveðna mynd af þessum málum. Það hefur oft verið sagt eitthvað á þann veg að greyið hafi bara verið að skoða myndir í tölvu," segir Gná.