Kerfisbundið misrétti

„Norðurlöndin og Holland voru lengi efst á listanum yfir stjórnmálaþátttöku kvenna, það er ekki lengur raunin." Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Drude Dahlerup, prófessors í stjórnmálafræði við Háskólann í Stokkhólmi, á ráðstefnu um stöðu og leiðir kvenna- og kynjafræða sem fram fór í Háskóla Íslands í gær og í dag.

Hún segir mun á Norðurlöndunum hvað varðar útkomu úr þingkosningum undanfarin kjörtímabil. Staða kvenna hefur versnað eða staðið í stað á Íslandi og í Danmörku, en í Svíþjóð batnar hún enn. Dahlerup segir ástæðuna fyrir þessu að einhverju leyti liggja í mismunandi orðræðu og viðhorfum til jafnréttismála. Aðgerðir til jafnréttis taki mið af þeim.

Í stórum dráttum segir hún fjórar hugmyndir ríkjandi um stöðuna. Fyrst sé það hugmyndin um kerfisbundið misrétti, þá að misrétti sé til vegna gamaldags fordóma, í þriðja lagi að jafnrétti hafi verið náð og loks að konur séu komnar fram úr og farið sé að halla á karla.

Hún segir að staðan í Svíþjóð sýni að enn sé litið svo á að jafnrétti sé ekki náð, þess vegna haldi staðan áfram að batna þar.

Niðurstöður kosninga hér á Íslandi gefi til kynna að Íslendingar líti svo á að hér gerist þetta af sjálfu sér, með tíð og tíma og þess vegna þurfi ekki að grípa til neinna sértækra aðgerða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert