Of lítið samráð er haft við Alþingi í meðferð EES-mála hér á landi og um eitthvert árabil hefur engin upplýsingagjöf um mál á mótunarstigi átt sér stað. Þetta segir Bjarni Benediktsson, alþingismaður og formaður utanríkismálanefndar, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Bjarni segir og að brýnt sé að huga að miklu öflugri samskiptum fastanefnda þingsins og þingflokka við áhrifaöflin í Brussel.
Hann rifjar upp að forsætisnefnd Alþingis hafi 1994 sett reglur um að hafa skuli virkt samráð við Alþingi um öll EES-mál á mótunarstigi og var gert ráð fyrir þegar þær voru settar að utanríkismálanefnd og EFTA-nefndin myndu funda mánaðarlega til að fjalla um EES-mál. ,,Af einhverjum ástæðum hefur þessum reglum ekki verið fylgt hin síðari ár. Svo virðist sem meðferð EES-mála á Alþingi hafi smám saman þróast í átt til minna samráðs og takmarkaðri upplýsinga, sérstaklega vegna mála á mótunarstigi," skrifar Bjarni.