„Grindvíkingar hafa sett uppbyggingu iðnaðarsvæða í forgang þar sem ríkisvaldið sniðgengur okkur í mótvægisaðgerðum vegna skerðingar á aflaheimildum. Hér eftir munu Grindvíkingar ætlast til að öll orka í Grindavíkurlandi verði nýtt til atvinnuuppbyggingar í Grindavík í ljósi breyttra aðstæðna,” sagði Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík, á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í dag sem haldinn var í hátíðarsal Keilis á Keflavíkurflugvelli, er kynnt voru helstu framgangsmál sveitarfélaganna á svæðinu.
„Grindvíkingar eru orðnir mjög þreyttir á hvernig ríkisvaldið hundsar okkur. Við eum líka þreyttir á því hvernig orkan sogast út úr sveitarfélaginu án þess að við berum neitt í bítum og því höfum við sett fram áætlum um uppbyggingu iðnaðarsvæða sem við köllum E3 eða Energy-, Ecology- og Economics," sagði Ólafur Örn.
„Í því sambandi erum við að skipuleggja 150 hektara svæði vestan við bæinn í viðbót við þá 50 hektara sem fyrir eru ofan við bæinn. Þá er til skoðunar allt að 500 hektara svæði norðan við Þorbjörn, norður undir Reykjanesbraut við Grindavíkurveginn. Þegar eru komnar fyrirspurnir frá stórum aðilum sem þurfa mikla orku og stórt landsvæði og því verðum við að taka þátt í þessum slag með þessum hætti en að sjálfsögðu í samvinnu við Hitaveitu Suðurnesja,” sagði Ólafur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins í framhaldi af kynningunni á fundinum.