Rætt við þrettán aðila

Páll Magnússon, stjórnarformaður Landsvirkjunar, segir að einhugur hafi ríkt innan stjórnarinnar um þá ákvörðun að hefja viðræður um raforkusölu við fyrirtæki sem hyggjast byggja upp netþjónabú á Íslandi og fyrirtæki á sviði kísilhreinsunar fyrir sólarrafala, fremur en ganga til samningaviðræðna við fyrirtæki sem hyggja á byggingu nýrra álvera á Suður- eða Vesturlandi. Hann vill ekki kannast við að ímyndarsjónarmið hafi legið til grundvallar, þ.e. að menn vilji bæta ímynd Landsvirkjunar og þannig mögulega auka líkur á því að leyfi fáist fyrir virkjun Þjórsár.

"Fyrir þessari ákvörðun liggja viðskiptalegar forsendur. Það þjónar einfaldlega hagsmunum fyrirtækisins að leita eftir sem bestu verði við raforkusöluna og síðan höfum við viljað auka fjölbreytni viðskiptavina og þar með dreifa áhættunni, þannig að við séum ekki bara háð einni atvinnugrein í þessum hópi stórnotenda."

Páll bætir því við að hitt sé annað mál að þetta sé í fyrsta sinn sem Landsvirkjun hafi úr fjölda áhugasamra kaupenda að velja. Ljóst sé að eftirspurnin eftir orku sé langt umfram framboð. Hann vill ekki tjá sig um hverjir mögulegir kaupendur orkunnar eru en segir að viðræður hafi farið fram við þrettán aðila um fimmtán verkefni og niðurstaðan sem nú liggi fyrir hafi verið tekin á grundvelli þeirra viðræðna.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, segist ekki efast um að ákvörðun Landsvirkjunar sé skynsamleg. "Ég sé ekki að þetta eigi að breyta nokkru um möguleika Suðurkjördæmis til uppbyggingar á orkufrekri starfsemi. Mér sýnist ennþá að það séu verkefni í Þorlákshöfn sem eru ofarlega á lista hjá þeim og hvað Helguvíkurframkvæmdina varðar þá er þar um að ræða orku frá öðrum aðilum [Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur]."

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, tekur í sama streng, þetta hafi ekki áhrif á áform um nýtt álver í Helguvík og ánægjulegt sé að Landsvirkjun ætli að hjálpa til við uppbyggingu annarra áhugaverðra verkefna á svæðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka