Steinþór Jónsson formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum kom víða við í skýrslu sinni í morgun á aðalfundi sambandsins. Þar bar hæst brotthvarf varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli og sú uppbygging sem þar er komin í gang. Hann ræddi menntamálin á svæðinu og það samstarf sem þar er í gangi en hafði fá orð um hitaveitumálið þar sem það kom ekki inn á borð strjórnar SSS.
Hann sagðist hins vegar telja að ný stjórn þurfi að endurskoða samstarfið frá grunni og jafnvel hætta því í núverandi mynd meðal annars í kjölfar frekari sameiningu sveitarfélaganna.
„Á þessu starfsári hafa komið upp mál þar sem hagsmunir sveitarfélaganna liggja ekki saman og því eðlilegt að spurt sé hvort er mikilvægara, framtíð svæðisins eða einstakra sveitarfélaga. Þessa hugsun skil ég eftir til umræðna í næstu stjórn SSS," sagði Steinþór Jónsson, sem nú hættir sem formaður sambandsins.