Björgunarsveitarmenn voru kallaðir út til aðstoðar hópi fólks sem var fast uppi í Kerlingarfjöllum í nótt. Að sögn lögreglunnar á Selfossi var um hóp ungs fólks að ræða. Einn úr hópnum náði að hafa samband við föður sinn um kl. 22 í gær og lét vita að bílar þeirra höfðu fest sig og að hópurinn væri búinn að koma sér fyrir í skála. Við það slitnaði sambandið. Í framhaldinu var ákveðið í samráði við foreldra ungmennanna að senda björgunarsveitarmenn til þess að sækja hópinn.