Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að flestir ættu að halda að sér höndum á meðan vextir á íbúðalánum eru jafn háir og raun ber vitni. Hann segir tilganginn með aðgerðum Seðlabanka Íslands, sem hækkaði stýrivexti í byrjun mánaðarins, vera að draga úr áhuga fólks á því að fjárfesta, t.d. í íbúðarhúsnæði. „Ef að fólk getur haldið að sér höndum og frestað fjárfestingum er það áreiðanlega það skynsamlegasta,“ sagði Geir í viðtali við Morgunvaktina á Rás 1.
Geir segir að eftir á að hyggja hafi það verið mistök að hækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs upp í 90% og hleypa bönkunum inn á íbúðarlánamarkaðinn árið 2004. „Það var farið of geyst í þessum efnum og afleiðingin varð sú að íbúðarverðið hækkaði svo mikið að þessar kjarabætur, sem áttu að verða, gufuðu upp og enginn varð bættari.“
Geir segir félagsmálaráðuneytið byrjað að endurskoða vissa þætti í hinu opinbera húsnæðislánakerfi þannig að hægt verði að gera betur við þá sem séu að kaupa sína fyrstu íbúð, eru lágtekjufólk eða búa á svæðum þar sem erfitt er að fá annarskonar lán.