Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Kristín Ingólfsdóttir, háskólarektor, hafa skrifað undir samning um áframhaldandi samstarf Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands um jafnréttisrannsóknir . Samningurinn felur m.a. í sér að launakostnaður við starf forstöðumanns Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) deilist jafnt niður á báða aðila næstu fjögur árin. Samstarfsverkefni verða ákvörðuð af samstarfsnefnd á reglulegum samráðsfundum, samkvæmt tilkynningu.
Við undirskrift samningsins sagði Dagur m.a. frá því að til stæði að styrkja jafnréttisstarf Reykjavíkurborgar með öflugu mannréttindaráði og mannréttindaskrifstofu. Áhugi væri fyrir því að rýna fjárhagsáætlun borgarinnar með svokölluðum kynjagleraugum, þ.e. taka mið af reynsluheimi beggja kynja við útdeilingu fjármuna.
Markmið samstarfsins er að stuðla að auknum jafnréttisrannsóknum og miðlun fræðilegrar þekkingar með áframhaldandi rannsóknum og fræðslu á sviði kvenna- og kynjafræða. Markmiðinu verður náð með eigin rannsóknum forstöðumanns; með umsóknum og þátttöku í innlendum, norrænum og evrópskum rannsóknaráætlunum; með því að hvetja til jafnréttisrannsókna meðal vísindamanna og framhaldsnema við Háskóla Íslands og innan íslensks fræðasamfélags og með því að efna til margs konar funda og fræðslu á sviði jafnréttis, að því er segir í fréttatilkynningu.