Stjórn Hollvina Ríkisútvarpsins mótmælir harðlega því samkomulagi sem tekist hefur milli Ríkisútvarpsins og Björgólfs Guðmundssonar um að hann leggi fram 2-300 milljónir króna til framleiðslu á íslensku, leiknu dagskrárefni fyrir Ríkisútvarpið á næstu þremur árum.
„Það er stórvarhugavert að einn af auðugustu athafnamönnum landsins skuli öðlast ítök í starfsemi Ríkisútvarpsins með þessum hætti og líkur á að það muni skerða möguleika starfsfólks RÚV til að fjalla um málefni fyrirtækja sem honum tengjast. Yfirlýsingar Björgólfs sjálfs og Þórhalls Gunnarssonar dagskrárstjóra um að Björgólfur sjálfur komi ekki nálægt efnisvali eru barnalegar og bera ekki vott um mikla þekkingu þessara manna á starfsháttum fjölmiðla og eðli þeirra.
Stjórn Hollvina Ríkisútvarpsins fordæmir þau orð sem Björgólfur Guðmundsson lét falla í þessu samhengi, sem voru á þá leið að ríkið væri versti eigandi fjölmiðla því það skerði frelsi þeirra. Þessu er einmitt þveröfugt farið. Í lýðræðisríkjum eru ríkisfjölmiðlar einu miðlarnir sem eru raunverulega frjálsir. Það hefur margsýnt sig um allan heim, ekki síst í Bandaríkjunum undanfarin ár, að eignarhald einkaaðila á fjölmiðlum og fjárhagslegir hagsmunir skerða frelsi og möguleika fjölmiðlafólks til heiðarlegrar og óháðrar umfjöllunar. Orð Björgólfs hljóta þar að auki að sýna ljóslega áhuga hans á að eignast RÚV í fyllingu tímans.
Nú er brýnna en nokkru sinni fyrr að standa vörð um frelsi og sjálfstæði RÚV. Hlutafélagsvæðing þess var fyrsta skrefið í átt að sölu. Nú hefur annað skrefið verið stigið. Nauðsynlegt er að stöðva þetta söluferli þegar í stað og hefja markvissa eflingu nútímalegs almannaútvarps sem er laust við hvers kyns ítök og íhlutun markaðsafla og dægurstjórnmála og getur því veitt hvoru tveggja nauðsynlegt aðhald," að því er segir í tilkynningu frá Hollvinum RÚV.