Orkuveita Reykjavíkur kannar nú hagkvæmni þess að virkja Farið sem rennur úr Hagavatni sunnan Langjökuls og reisa þar 30-40 MW vatnsaflsvirkjun. Farið yrði stíflað og sömuleiðis byggð lægri stífla við eldra útfall vatnsins ofan við Leynifoss. Iðnaðarráðuneytið veitti OR rannsóknarleyfi á svæðinu fyrr á árinu en ætlunin er m.a. að kanna hvort farið geti saman stöðvun sandfoks á svæðinu og raforkuframleiðsla. Landgræðslan hefur lengi haft hug á að stífla vatnið til að hefta sandfok sem hún telur m.a. eiga uppruna sinn í þornuðum vatnsbotni Hagavatns. Náttúrufræðistofnun bendir á að verði Hagavatn notað sem miðlunarlón muni leirfok úr botninum aukast seinni part vetrar og fyrri part sumars.
"Með stíflu og virkjun Hagavatns yrði gripið inn í eitt stórbrotnasta landmótunarferli Langjökuls," segir Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands. Svæðið sé eins og opin og auðlesin jarðfræðibók.