Atvinnuleysi í október mældist 0,8% samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun, eins og í september. Atvinnuleysið er um þessar mundir í 19 ára lágmarki en á sama tíma í fyrra mældist 1% atvinnuleysi.
Vinnumálastofnun segir, að atvinnuleysið versni yfirleitt milli október og nóvember en í fyrra fór atvinnuleysi milli þessara mánaða úr 1% í 1,1%. Þá hefur lausum störfum farið fækkandi og laus störf í lok október fyrir ári síðan voru nokkru fleiri en nú. Segir Vinnumálastofnun að þegar allt sé talið megi því gera ráð fyrir að atvinnuleysi aukist lítillega milli október og nóvember.