Embætti borgarritara lagt niður

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Sverrir

Borgarráð samþykkti að leggja niður embætti borgarritara í Ráðhúsi Reykjavíkur á aukafundi sínum í dag. Jafnframt var ákveðið að ráða Hrólf Jónsson, sviðsstjóra Framkvæmdasviðs, framkvæmdastjóra Eignasjóðs Reykjavíkur, og Birgi Björn Sigurjónsson, mannauðsstjóra Reykjavíkurborgar, fjármálastjóra Reykjavíkurborgar til eins árs.

Embætti borgarritara var stofnað af fyrrverandi borgarstjórnarmeirihluta þann 19. júní sl. Samþykktin fól í sér að borgarritari væri æðsti embættismaður borgarinnar að borgarstjóra frátöldum og staðgengill hans. Embættið hefði yfirumsjón með þremur stjórnsýsluskrifstofum og sex fagskrifstofum í Ráðhúsinu. Magnús Þór Gylfason var ráðinn tímabundið í starfið en það var auglýst laust til umsóknar í ágúst sl.

Nú mun starfsemi áðurnefndra skrifstofa framvegis heyra beint undir borgarstjóra. Á fundi borgarráðs var lögð fram umsögn stjórnkerfisnefndar um tillögu borgarstjóra um að leggja embættið niður. Þar segir að stjórnkerfisnefnd styðji tillögu um að leggja niður stöðu borgarritara enda sé málið vel ígrundað og undirbúið. Með tillögunni sé fækkað í yfirstjórn borgarinnar um leið og skipan yfirstjórnar verði flatari og í takt við það sem gildi hjá mörgum fyrirtækjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert