Sala á utanlandsferðum í haust og vetur hefur aldrei verið meiri en í ár og gera má ráð fyrir sprengingu í sölu sólarlandaferða fyrir næsta sumar „enn eitt árið – ef marka má upplýsingar fengnar frá Icelandair, Iceland Express og Heimsferðum. Verðbólga og háir vextir virðast því ekkert slá á þörf Íslendinga til að ferðast.
„Við vorum með helmingi meiri framleiðslu núna í haust en í fyrra. Salan fór snemma af stað og snemma síðasta vor var ljóst að haustið yrði gott og veturinn raunar allur. Við erum t.d. búin að tvöfalda framboðið í Karíbahafinu frá því í fyrra og það er góð vísbending um mikla ferðagleði," segir Andri Már Ingólfsson, forstjóri og aðaleigandi Primera Travel Group. Hann segir sumarsöluna jafnframt fara vel af stað og merkir vísbendingar um að ferðirnar hreyfist betur en venjulega.