Í flestum ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, hafa lífslíkur aukist mikið á síðustu áratugum. Árið 2005 voru lífslíkur við fæðingu 81,2 ár á Íslandi en aðeins í Japan (82,1 ár) og Sviss (81,3 ár) voru þær hærri. Lífslíkur voru að meðaltali 78,6 ár í OECD ríkjum.
Lífslíkur karla hæstar á Íslandi, 79,2 ár, en lífslíkur íslenskra kvenna í 7. sæti OECD ríkja eða 83,1 ár.
Þetta kemur m.a. fram í ritinu Health at a Glance 2007, sem OECD gefur út. Þar kemur einnig fram, að 89,4% þeirra, sem greinst höfðu með brjóstakrabbamein á Íslandi á árunum 1996-2000, lifðu í 5 ár eða lengur eftir greiningu. Var þetta hæsta hlutfall meðal aðildarríkja efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, en meðaltal þeirra var 83,6%.
Árangur af meðferð við kransæðastíflu á Íslandi, mældur sem hlutfall látinna í innlögn innan 30 daga, var í öðru til fjórða sæti ásamt Ástralíu og Danmörku eða 6,4% árið 2005, en lægst var hlutfallið á Nýja Sjálandi 5,4%. Meðaltal OECD ríkja var 10,2%.
Hlutfall látinna í innlögn innan 30 daga eftir heilablóðfall var þriðja lægst á Íslandi sama ár, 5,8% næst á eftir Japan og Bretlandi. Meðaltal OECD ríkja var 10,1%.
Árið 2005 var tíðni ungbarnadauða lægst á Íslandi eða sem svarar 2,3 látnum á fyrsta ári af 1000 lifandi fæddum en meðaltal OECD landa var á sama tíma 5,4. Þá var hlutfall lifandi fæddra með lága fæðingarþyngd (undir 2500 gr.) einnig lægst á Íslandi þetta ár eða 3,9% en meðaltal OECD landa var 6,6%.