Allir bílar undir gervihnattaeftirliti

Samgönguráðuneytið, Neyðarlínan og fyrirtækið ND vinna að því, í samstarfi við Evrópusambandið, að unnt verði að taka upp sjálfvirka hringingu úr bílum í Neyðarlínuna, beri slys að höndum. Það mun jafnframt þýða að allir bílar verða undir gervihnattaeftirliti.

Nái áformin fram að ganga ber ast Neyðarlínunni strax upplýsingar um staðsetningu bílsins, hraða sem ekið var á, númer bílsins, tegund og mögulegan fjölda farþega auk þess sem upplýsingar fást um hversu mikið höggið var. Verkefnið gengur undir heitinu e-Call sem stendur fyrir emergency call.

,,Við erum fulltrúar Íslands í þessu verkefni og vinnum að undirbúningi að þessu kerfi hér. Það er ósk Evrópusambandsins að það verði í öllum bílum framleiddum fyrir Evrópumarkað frá og með árinu 2010," segir Friðgeir Jónsson, framkvæmdastjóri ND, fyrirtækis sem sérhæfir sig í tækni á sviði eftirlits með aksturslagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert