Hópi Pólverja sem starfar á Akureyri hefur verið meinaður aðgangur að skemmtistaðnum Kaffi Akureyri vegna dónalegrar framkomu við kvenfólk, eins og eigandi staðarins orðar það.
„Þetta hefur verið vandamál í nokkra mánuði. Það má segja að við höfum sofið á verðinum og hefðum átt að grípa inn í miklu fyrr,“ segir Birgir Torfason, annar eigenda staðarins.
Birgir segir um að ræða 20 manna hóp. „Þeir eru oft dauðadrukknir og haga sér eins og ruddar; vaða í klofið á kvenfólki og virðast halda að allar stelpur sem eru einar á ferð séu tilkippilegar.“ Upp úr sauð fyrir hálfum mánuði, að sögn Birgis. „Þá brutust hér út slagsmál og þessir menn gengu m.a. í skrokk á dyravörðunum okkar. Þá var ákveðið að taka á málinu fyrir fullt og allt. Ákvörðunin er því endanleg.“
Birgir segir margbúið að vísa umræddum mönnum út af staðnum og reynt að útskýra málið en þeir ekki látið segjast. „Svona dónaleg framkoma verður ekki liðin hér.“