Eignarliður vegna viðskiptavildar Norðurljósa samræmdist ekki lögum

Í rannsóknarskýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum Norðurljósa hf. frá árinu 2003 kemur m.a. fram, að við samruna Fjölmiðlunar hf. og Norðurljósa hafi verið búinn til eignarliður að fjárhæð 1.642.103.000 krónur, nefndur viðskiptavild, til þess að mæta útgáfu nýs hlutafjár í Norðurljósum.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra er tekið fram, að færsla viðskiptavildar með þessum hætti samrýmst hvorki skattalögum né ársreikningalögum. Því eigi að fella niður eignarliðinn viðskiptavild í ársreikningi félagsins og færa niður hlutafé þess.

Þetta kemur m.a. fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli, sem Hreggviður Jónsson, fyrrum framkvæmdastjóri Íslenska útvarpsfélagsins og Norðurljósa, höfðaði gegn ríkinu vegna þess, að tekjufærðar voru á hann 20 milljónir króna á tekjuárinu 1999 vegna skipta á hlutabréfum í Íslenska útvarpsfélaginu í hlutabréf í Norðurljósum. Héraðsdómur staðfesti úrskurð yfirskattanefndar og sýknaði ríkið. Dómurinn felldi hins vegar niður 25% álag á tekjuviðbótina, sem skattayfirvöld höfðu ákvarðað.

Norðurljós samskiptafélag var stofnað árið 1998 til að taka við rekstri Íslenska útvarpsfélagsins og tengdra félaga, sem þá ráku m.a. Stöð 2 og Bylgjuna. Á þeim tíma voru tveir hluthafar í Íslenska útvarpsfélaginu, annars vegar Fjölmiðlun og hins vegar Hreggviður Jónsson.

Dómurinn í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert