Í lok fundar með iðnaðarráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, sem fram fór í Róm í gær bauð Andris Piebalgs, sem er æðsti yfirmaður orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Íslendingum sérstaklega að kynna möguleika á sviði jarðvarma í Brussel í lok janúar nk. en þá hyggst Evrópusambandið halda kynningarviku um endurnýjanlega orkugjafa í tilefni nýrra tillagna sem miða að því að ýta undir framleiðslu grænnar orku í löndum Evrópu.
Iðnaðarráðherra kynnti áætlanir um að vinna gegn orkufátækt í A-Afríku
Í fréttatilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu kemur fram að á fundinum kynnti iðnaðarráðherra framkvæmdastjóranum áform Íslendinga um að koma virkjun jarðvarmaorku á dagskrá í heiminum, og upplýsti hann um að Íslendingar væru nú þegar að undirbúa á annan tug jarðvarmavirkjana í löndum Evrópu. Jafnframt greindi hann framkvæmdastjóranum frá áætlunum Íslendinga um að nýta jarðvarma til að vinna gegn orkufátækt í löndum Austur-Afríku, og stuðla að því að íbúar viðkomandi landa ættu kost á grænni, endurnýjanlegri orku á viðráðanlegu verði.
„Piebalgs upplýsti að í tengslum við samþykkt framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á nýjum tillögum um græna orku væri áformað að halda sérstaka kynningarviku í Brussel á möguleikum á því sviði, og hann kvað tilfinnanlega vanta að koma möguleikum jarðvarmaorku á framfæri. Eftir fundinn með fulltrúum iðnaðarráðuneytisins kvað hann enga betur til þess fallna en Íslendinga, og lýsti áhuga á að heimsækja Ísland á fyrri hluta næsta árs til að kynna sér frumkvæði Íslendinga á sviði grænnar orku.
Til að vekja enn frekari athygli Evrópuríkjanna á möguleikum á sviði jarðvarmaorku bauð Piebalgs að framkvæmdastjórnin gæti haft milligöngu um að tíu blaðamönnum, sem fjalla um orkumál innan Evrópusambandsins, yrði boðið til Íslands á undan kynningunni í Brussel, eingöngu í því skyni að kynna sér, og fjalla um þá möguleika sem Íslendingar telja liggja á sviði jarðvarmaorku.
Á fundinum kynnti iðnaðarráðherra jafnframt þá möguleika sem gætu falist í djúpborunarverkefni Íslendinga, og óskaði eftir samvinnu við Evrópusambandið um ákveðna þætti rannsóknanna. Piebalgs tók afar jákvætt í málaleitan Íslendinga, og var ákveðið að reyna að vinna henni brautargengi innan ESB," samkvæmt fréttatilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu.
Fundurinn fór fram í tengslum við World Energy Congress, sem er haldið þriðja hvert ár og er helsti vettvangur umræðna um stefnu og stöðu orkumála í heiminum. Á þinginu hafði iðnaðarráðherra framsögu og tók þátt í pallborðsumræðum um aðalskýrslu þingsins, sem að þessu sinni fjallaði um orku og loftslagsmál.