Bæði kennarar, foreldrar og aðrir fullorðnir hrósa strákum síður en stelpum, að því er fram kemur í nýrri rannsókn á líðan íslenskra skólabarna í fimmta, sjötta og sjöunda bekk. Almennt eru niðurstöðurnar góðar, og krakkarnir segja flestir að sér líði vel og samband sitt við foreldra sína sé gott.
Rannsóknin var unnin af Rannsóknum og greiningu, rannsóknasetri við Háskólann í Reykjavík, að beiðni menntamálaráðuneytisins.
Einnig kemur fram í niðurstöðunum, að almennt eiga krakkarnir góða vini og hafa margt uppbyggilegt fyrir stafni. Flest eru börnin dugleg að hreyfa sig og gera það reglulega. Þó eru milli 10% og 20% barna sem hreyfa sig lítið sem ekki neitt.
Af öðrum niðurstöðum rannsóknarinnar má nefna, að á milli 11% og 16% barna í 5.-7. bekk finnst þau ekki vera flott. Um 21% stráka og 23% stelpna í 7. bekk finnst þau vera of feit og 11% stráka og stelpna á sama aldri finnst þau vera of mjó.
Stelpur eru líklegri en strákar til að finnast þær einmana, frá 15% og upp í 17% stelpna í 5.-7. bekk sögðust stundum eða oft hafa verið einmana síðustu 7 daga fyrir gerð könnunarinnar. Þetta hlutfall er frá 8% og upp í 12% meðal stráka.
Flest börn eiga greiðan aðgang að stuðningi og umhyggju frá foreldrum sínum, og þau eyða einnig flest miklum tíma með foreldrum sínum. Þó segjast 27% stráka í 5. bekk, og 21% stráka í 6. og 7. bekk sjaldan, næstum aldrei eða aldrei, tala saman með öllum í fjölskyldu sinni. Þetta hlutfall er frá 14% og upp í 18% meðal stelpna.
Tæp 20% stráka í 5. bekk og tæp 14% stelpna segjast oft vera ein heima eftir skóla.
Mjög fá börn í 5., 6., eða 7. bekk segjast oft hafa tekið þátt í einelti, eða 0-1%. Hins vegar eru töluvert fleiri sem segjast oft hafa orðið fórnarlömb stríðni eða eineltis, eða 2-4%. Mest stríðni fer fram innan skólalóðar.