Geir Árdal, bóndi í Dæli í Fnjóskadal, er að ljúka við lagningu ljósleiðara heim að bænum fyrir eigin reikning – alls rúmlega 7 kílómetra leið. Hann segir kostnaðinn vera um tvær milljónir króna, en telur nauðsynlegt að fá öflugri gagnaflutning heim að bænum. „Þetta er örugglega bilun, en ögrun við þá stóru,“ segir Geir í samtali við Morgunblaðið, og vísar þar til þess að hvorki Fjarskiptasjóður né Síminn hafi viljað koma að því að leggja ljósleiðara í dalinn.
Bærinn Dæli stendur rétt austan við Víkurskarðið, sem tengir Eyjafjörð og Fnjóskadal. Þar er nú aðeins ISDN-tenging í boði og Geir og fjölskylda hafa einungis aðgang að
Ríkissjónvarpinu og ekki er einu sinni hægt að treysta því að RÚV sjáist vel, og hefur aldrei verið hægt: „Þegar snjóar úti sjáum við það á skjánum,“ sagði Geir við Morgunblaðið. „Það má segja að við séum bara með einn sjónvarpstakka á heimilinu; til að kveikja og slökkva! Við getum ekki stillt á aðrar stöðvar.“
Fyrirtækið Tengir á Akureyri er að leggja ljósleiðara frá Svalbarðseyri til Grenivíkur. Hann liggur framhjá Víkurskarðinu og Geir samdi við fyrirtækið um að tengjast leiðaranum og sjá um að leggja áfram heim til sín.