Leitað leiða til að draga úr blaðaúrgangi

Sorpfjöllin hækka stöðugt, m.a. vegna þess hve fjölpóstur hefur vaxið …
Sorpfjöllin hækka stöðugt, m.a. vegna þess hve fjölpóstur hefur vaxið að umfangi. mbl.is/Friðrik

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, ætlar að setja á stofn starfshóp til að skoða leiðir til að koma böndum á fjölpóst og það sorp, sem fellur til vegna þess pósts. Þórunn sagði á Alþingi í dag, að pappírsúrgangur hafi aukist um 76% á síðustu fjórum árum og stór hluti þess sé dagblöð. Þessi þróun hafi aukið sorpmagn án þess að það hafi skilað sér í flokkun sorps til endurvinnslu.

Þórunn var að svara fyrirspurn frá Siv Friðleifsdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins. Siv vildi vita hvenær mætti vænta aðgerða, sem hafi það að markmiði að auka ábyrgð þeirra sem dreifa fjölpósti á kostnaði við söfnun og förgun úrgangs hans. Sagði Siv, að ótrúlega mikið af fjölpósti gubbaðist inn um bréfalúguna hjá fólki, sem þyrfti síðan gegnum skatta sína, að greiða fyrir að koma þessu í lóg.

Þórunn sagðist hafa ákveðið að láta skoða þetta mál, m.a. til að draga fram umhverfiskostnaðinn af vörunni og tryggja að einhver beri hann. Skipaður verði starfshópur sem fjalli m.a. um hvort innleiða eigi framleiðendaábyrgð eða setja á úrvinnslugjald.

Sagði Þórunn nauðsynlegt, að draga úr þessum blaðaúrgangi og því gífurlega blaðamagni, sem komi inn um lúgurnar því einhversstaðar lægi kostnaðurinn vegna þessa óumbeðna blaðafargans. Þá sagði Þórunn, að stór hluti af þessum fjölpósti færi ekki í endurvinnslu heldur beint í venjulega heimilistunnu. Gera þyrfti heimilunum auðveldara að endurvinna það, sem þó bærist.

Siv kvartaði einnig yfir því að ekki væri lengur hægt að fá hjá Íslandspósti miða, til að líma á útihurðir þar sem fjölpóstur er afþakkaður. Þórunn sagðist hafa spurst fyrir um þessa ákvörðun Íslandspósts og fengið m.a. þau svör, að líklega væri ekki nægileg lagastoð fyrir að dreifa slíkum miðum. Sagði Þórunn, að sín fyrstu viðbrögð hefðu verið undrun yfir því, að lög þurfi að vera fyrir því, að afþakka póst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert