Starf forstöðumanns veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar (UST) verður lagt niður um áramót, þegar nýtt skipurit stofnunarinnar tekur gildi. Áki Ármann Jónsson var skipaður veiðistjóri þegar embættið var sett á laggirnar 1995, með aðsetur á Akureyri. Fyrir fjórum árum sameinaðist það Umhverfisstofnun og „veiðistjóri“ varð þá forstöðumaður veiðistjórnunarsviðs UST. Starfsmenn á Akureyri hafa verið fimm undanfarið og ekki er annað vitað en hinir fjórir starfi þar áfram, en Áka hefur verið boðið nýtt starf forstöðumanns fræðslu- og upplýsingasviðs, með aðsetur í höfuðstöðvunum í Reykjavík.
Haft er eftir Ellý Katrínu Guðmundsdóttur, forstjóra UST, á heimasíðu stofnunarinnar að nýtt skipurit sé afrakstur yfirgripsmikillar stefnumótunarvinnu sem staðið hafi frá því í vor. Með breytingunum sé verið að skapa „nýjan grundvöll fyrir umræðu um framtíð stofnunarinnar og horfa fram á veginn með opnum huga og jafnframt að svara kröfum stjórnsýsluúttektar sem gerð var á stofnuninni á síðasta ári“.