Tveir grunaðir um hrottalega nauðgun

Rannsókn á hrottalegri nauðgun sem átti sér stað í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt laugardagsins sl. gengur vel, að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar. Tveir karlmenn á þrítugsaldri hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 19. nóvember nk. en báðir kærðu þeir úrskurðinn til Hæstaréttar.

Kona á fimmtugsaldri hlaut töluverða áverka við nauðgunina sem talið er að hafi átt sér stað í húsasundi ofarlega á Laugavegi. Hún leitaði á neyðarmóttöku í kjölfarið og einnig til lögreglu. Friðrik Smári segir hana hafa verið afar skelkaða. Konan gat þó gefið greinargóða lýsingu á mönnunum og með því að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum úr miðbænum voru kennsl borin á þá. Mennirnir sem báðir eru grunaðir um að hafa nauðgað konunni voru handteknir síðdegis á sunnudag. Fundum þeirra bar saman á ölstofu og yfirgáfu þau hana saman.

Þótt einungis hafi verið búið að kæra eina nauðgun í gær, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar, leituðu fimm konur til neyðarmóttöku nauðgana við bráðamótttöku Landspítalans um nýliðna helgi, að sögn Eyrúnar B. Jónsdóttur deildarstjóra. Fjórar þessara nauðgana urðu á höfuðborgarsvæðinu og ein úti á landi. Eyrún sagði að því miður kæmu oft upp nokkur nauðgunarmál um helgar því þessi tegund ofbeldis, líkt og annað ofbeldi, væri svo tengd skemmtanalífinu. Hún sagði að brotin væru ekki alltaf kærð strax og sagði óljóst nú hve mörg brotanna um nýliðna helgi yrðu kærð.

118 mál á þessu ári

Eyrún sagði að það sem af væri árinu hefðu 118 nauðgunarmál borist neyðarmóttökunni. Í fyrra urðu málin 145 allt árið og 130 í hitteðfyrra. Langflest fórnarlambanna eru konur en karlar frá einum og upp í sex á ári. Það sem af er þessu ári hafa fimm karlar tilkynnt nauðgun.

Í febrúar sl. var gerð tilraun til nauðgunar í húsasundi við Vesturgötu í Reykjavík og komst fórnarlambið undan við illan leik. Í október á síðasta ári voru kærðar þrjár nauðganir sem rekja má til miðborgarinnar. Öll eru málin óupplýst en ein konan hefur dregið kæru sína til baka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert