Styttri ræður, sterkara þing, fleira starfsfólk og fleiri utandagskrárumræður eru meðal breytinga sem ræddar eru á vettvangi Alþingis. Forseti Alþingis hitti þingflokksformenn í gærkvöld. „Ég er að vona að niðurstaða sé að nást," segir Sturla Böðvarsson, sem hefur unnið að breytingunum frá því í þingbyrjun ásamt formönnum þingflokkanna. Lengi hefur staðið til að breyta starfsháttum Alþingis og forneskjuleg vinnubrögð verið margrædd á þinginu og utan þess.
„Mín stefna er skýr: ég vil styrkja og efla þingið og bæta aðstöðu þingmanna til að sinna löggjafarstörfum. Nauðsynlegt er að styrkja nefndasviðið sérstaklega og trúlega þarf meiri mannskap á Alþingi, " segir Sturla, þó tregur til að fara nánar út í breytingarnar sem eftir er að samþykkja í þingflokkunum. Hann segir fullkomna samstöðu í ríkisstjórnarflokkunum en stjórnarandstaðan eigi eftir að segja sitt.