Bifreið gjöreyðilagðist er hún þeyttist á bensínstöð

Bifreiðin gjöreyðilagðist eins og sést á þessari mynd sem var …
Bifreiðin gjöreyðilagðist eins og sést á þessari mynd sem var tekin í nótt. mbl.is/Frikki

Mjög harður árekst­ur varð við bens­ín­stöð Skelj­ungs við gatna­mót Klepps­veg­ar og Sæ­braut­ar í Reykja­vík um kl. 1:20 í nótt. Að sögn lög­reglu missti ökumaður stjórn á bif­reið er hann beygði inn Klepps­veg af Sæ­braut. Bif­reiðin var á mik­illi ferð og endaði hún að hluta inni í bens­ín­stöðinni sem skemmd­ist mikið. Bif­reiðin er gjör­ónýt. Tveir voru flutt­ir á sjúkra­hús en þeir eru ekki tald­ir vera al­var­lega slasaðir. Ökumaður­inn er grunaður um að hafa ekið und­ir áhrif­um áfeng­is og vímu­efna.

Að sögn lög­reglu ók bif­reiðin niður um­ferðar­skilti, rakst á stólpa og hring­sner­ist á milli bens­ín­dæl­anna og af­greiðslunn­ar. Hún hafnaði að end­ingu með aft­ur­end­ann að hluta inni í af­greiðslu bens­ín­stöðvar­inn­ar. Mikl­ar skemmd­ir urðu á bens­ín­stöðinni en eng­in var þar inni þegar slysið varð. Lög­regla seg­ir mikla mildi að ekki hafi orðið slys á öðrum veg­far­end­um.

Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins sendi tækja­bíl auk nokk­urra sjúkra­bíla á staðinn. Hún var í um þrjá tíma á vett­vangi við hreins­un­ar­störf. Að sögn SHS var aðkom­an mjög ljót og minnti hún meira á flug­slys held­ur en um­ferðarslys.

Á meðan lög­reglu­menn og slökkviliðsmenn voru að störf­um á vett­vangi í nótt kom önn­ur bif­reið og ók inn á svæðið sem búið var að girða af. Lög­regl­an seg­ir öku­mann­inn hafa ekið á ofsa­hraða og mildi að eng­inn hafi orðið fyr­ir henni. Lög­reglu­menn veittu bif­reiðinni eft­ir­för og var ökumaður­inn stöðvaður stuttu síðar. Að sögn lög­reglu var ökumaður­inn ölvaður og einnig und­ir áhrif­um fíkni­efna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka