Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í 2½ árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn sex ungum stúlkum, sem voru á aldrinum 4-13 ára þegar brotin voru framin. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða öllum stúlkunum nema einni bætur, samtals 2,9 milljónir króna, auk 2,3 milljóna króna í málskostnað.
Maðurinn var ákærður í júní í sumar fyrir að kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum, sem allar eru fæddar árið 1992. Ein er bróðurdóttir mannsins. Í september var gefin út önnur ákæra þar sem manninum var gefið að sök að hafa á árunum 1988-1994 brotið margsinnis gegn stúlku sem fædd er 1984, og einnig annarri stúlku, sem fædd er 1987, árið 1993 eða 1994. Þessar stúlkur voru systkinabörn mannsins.
Í niðurstöðu dómsins segir, að brot mannsins séu alvarleg, en hann sé sakfelldur fyrir misjafnlega gróf kynferðisbrot gagnvart sex ungum stúlkum. Séu brotin trúnaðarbrot og beinst að stúlkum sem honum var beint og óbeint treyst fyrir. Þá hafi sumar stúlkurnar verið á viðkvæmu þroskaskeiði er brotin áttu sér stað. Sé háttsemi ákærða sérlega ámælisverð þar sem tvær stúlknanna voru einungis börn þegar atvikin áttu sér stað.