Erlend lántaka heimilanna í landinu hefur færst gríðarlega í vöxt á undanförnum þremur árum og var í september komin í 108 milljarða króna en aukningin á fyrstu níu mánuðum ársins nam 57,6%. Af þessum 108 milljörðum fóru 25,2 milljarðar til íbúðalána. Skýringin á áhuga heimilanna á erlendum lánum er einföld: þessi lán bera lægri vexti en innlendu lánin.
Erlendu lánin eru óverðtryggð en nær öll lán sem fólk tekur til fasteignakaupa hér á landi eru verðtryggð. Sá sem tekur erlent lán til íbúðakaupa greiðir í dag 4-5,5% nafnvexti, en sá sem tekur venjulegt íbúðalán hjá bönkunum greiðir hins vegar um 12% vexti þegar tekið hefur verið tillit til vaxta og verðtryggingar.
Athyglisvert er að skoða samanburð á óverðtryggðum erlendum húsnæðislánum sem Glitnir er að bjóða. Ef þetta lán er tekið í íslenskum krónum ber það 15,75% vexti. Ef lánið er hins vegar tekið í erlendri mynt er það með 5,67% vöxtum.
Hafa ber hins vegar í huga í þessu samhengi að talsverð gengisáhætta fylgir erlendu lánunum. Sveiflur á gengi krónunnar geta vissulega leitt til þess að höfuðstóll lánsins lækki, en þær geta einnig leitt til hækkunar á höfuðstól og þar með þyngri greiðslubyrðar. Til dæmis má nefna að gengi krónunnar var mjög sterkt í lok árs 2005 en nokkrum vikum síðar fór það að falla og féll á tveimur mánuðum um 28%. | 14