Íslenskar mjólkurvörur fastar í tolli í Svíþjóð

Íslenskar mjólkurvörur.
Íslenskar mjólkurvörur. mbl.is/Ómar

Allar íslenskar mjólkurvörur, sem átti að sýna á árlegri mjólkursýningu í Herning í Danmörku, voru stoppaðar í sænska tollinum og náðu því ekki á staðinn á tilteknum tíma. Segir á vef Bændablaðsins, að sænsk tollayfirvöld hafi ekki verið á þeim buxunum að hleypa tæplega 200 íslenskum mjólkurvörutegundum áfram til Danaveldis.

Fulltrúar íslenska mjólkuriðnaðarins hafa annað hvert ár farið á sýninguna í Herning og tekið þátt í margskonar keppnum við norrænar frændþjóðir. Nú sendu Íslendingarnir vörur sínar með flugi til Stokkhólms í Svíþjóð en þar átti önnur vél að taka við vörunum og ferja til Herning í Danmörku. En í Svíþjóð sat allt fast.

Haft er eftir Magnúsi Ólafssyni, aðstoðarforstjóra hjá MS, sem er í Herning, að farið verði ofan í saumana á því hvað gerðist. „Við sendum yfir 200 sýnishorn af stað í síðustu viku sem áttu að vera hér úti fyrir helgi. Það var valið að senda ostana með fraktflugi til Svíþjóðar í stað almennrar vélar til Kaupmannahafnar eins og við gerðum árið 2005. Þá reyndar skemmdist hluti af ostunum og því var þessi flutningsleið valin en Flugleiðir bjóða ekki upp á fraktflug til Kaupmannahafnar,“ sagði Magnús.

„Ostarnir áttu aldrei að fara inn í Svíþjóð og gegnum toll þar heldur átti að fljúga áfram með þá til Danmerkur eftir millilendingu. Við höfum ekki fengið nákvæma skýringu á því af hverju þetta gekk svona fyrir sig en þar sem við erum fyrir utan Evrópubandalagið þarf að upprunamerkja vörur sem við vorum í raun búin að gera en það voru einhverjir fleiri skilmálar sem við eigum eftir að fá á hreint. Það er búið að fara fram gríðarlegur undirbúningur og við vorum hér með dómara og annað. En við ætlum að sofa á þessu og fara yfir málið en þetta eru gríðarleg vonbrigði fyrir okkur,“ sagði Magnús.

Vefur Bændablaðsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert