Kópavogsbær með sértækar aðgerðir í starfsmannamálum

Bæjarráð Kópavogs samþykkti í dag sértækar aðgerðir í starfsmannamálum hjá Kópavogsbæ. Tilgangurinn er að auka stöðugleika í starfsmannahaldi, bregðast við samkeppni á vinnumarkaði og laða starfsfólk að lausum stöðum hjá bænum. Sérstakt framlag vegna aðgerðanna nemur ríflega 150 milljónum króna á árinu 2008.

Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ felast m.a. í aðgerðunum mánaðarleg greiðsla til tiltekinna starfsmanna grunnskóla og leikskóla frá 6000 krónum upp í 16 þúsund krónur, hækkun á tímabundnum viðbótarlaunum úr 0,5% í 1%, tvöföldun á framlögum til sjóðs viðbótarlauna grunnskólanna auk stofnunar sjóða til eflingar á innra starfi hjá leikskólunum, forgangur fyrir tilteknar starfsstéttir fyrir börn þeirra í leikskóla og að þær njóti forgangsgjalds, auknar heimildir varðandi mat á starfsreynslu, 60% hækkun á lágmarksstyrk til heilsuræktar og ókeypis miðar á tvenna tónleika í tónleikaröðinni Tíbrá í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs.

Segjast bæjaryfirvöld í Kópavogi telja, að þessar aðgerðir samrýmist samþykktum launanefndar sveitarfélaganna og kjarasamningum.

Í tilkynningu frá Samfylkingunni í Kópavogi, sem er í minnihluta í bæjarstjórn, segir að því sé fagnað að fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn skuli loksins hrökkva upp af svefni sínum og leggja fram tillögur, sem séu í þeim anda sem Samfylkingin hafi lagt fram ítrekað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert