Eftir Höllu Gunnarsdóttur
Nýtt félag þriggja sveitarfélaga um orkuauðlindir á Suðurnesjum hefur verið í undirbúningi undanfarið og stofnun þess verður að öllum líkindum tilkynnt fyrir hádegi í dag.
Það eru sveitarfélögin Grindavík, Hafnarfjörður og Vogar sem hafa átt í viðræðum en með stofnun félagsins má segja að þau séu að snúa bökum saman og slíðra sverðin í deilum sem hafa staðið yfir um jarðhitaréttindi. Vinnuheiti félagsins er Suðurlindir og mun það ráða yfir meirihluta framtíðarvinnslusvæðis fyrir háhita á Suðurnesjum. Orkuauðlindirnar verða því alfarið í opinberri eigu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins nýtur félagið víðtæks, pólitísks stuðnings í sveitarfélögunum, frá fulltrúum allra flokka.