Bæjarstjórn Garðabæjar hefur samþykkt að torgið sem nýtt hús Náttúrufræðistofnunar Íslands rís við í Urriðaholti í Garðabæ verði nefnt Jónasartorg. Tillaga þess efnis var lögð fram á fundi bæjarstjórnar í dag í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar en hann hefur stundum verið kallaður fyrsti íslenski náttúrfræðingurinn.
Í tilkynningu frá Garðabæ segir, að nýlega hafi verið ákveðið að reisa nýbyggingu í Urriðaholti sem hýsa á Náttúrufræðistofnun Íslands, sem flyst þá frá Hlemmi í Reykjavík til Garðabæjar. Húsið rís við torg sem rammaskipulag Urriðaholts og tillögur að deiliskipulagi gera ráð fyrir neðst við Urriðaholtsbraut. Segir bærinn, að með nafngift torgsins sé tengslum Jónasar Hallgrímssonar við náttúruvísindi haldið á lofti þótt vissulega sé hann þekktari sem þjóðskáld.
Í tillögunni segir að fram til þessa hafi engin gata, vegur, stræti eða torg á Íslandi verið kennt við Jónas Hallgrímsson og megi segja að það sé orðið tímabært með tilliti til stöðu Jónasar í íslenskri þjóðarvitund.