Ekki verður lögð malbikuð hraðbraut í Þórsmörk. Þetta var niðurstaða mælsku og rökræðukeppni, sem fór fram í Hvoli á Hvolsvelli í vikunni milli sveitarstjórna í Rangárvallasýslu og tjáskiptasamtakanna ITC. Þykir því ljóst að enn um sinn að minnsta kosti þurfi að notast við holótta vegi inn í Þórsmörk og fara yfir óbrúaðar ár.
Samkvæmt upplýsingum frá ITC mæltu sveitarstjórnirnar með tillögu um hraðbraut í Þórsmörk en félagar í ITC mæltu gegn tillögunni og höfðu betur.
Af hálfu sveitarstjórnarmanna voru ræðumenn þau Eydís Þ. Indriðadóttir, oddviti Ásahrepps, Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra og Ingvar P. Guðbjörnsson, sveitarstjórnarmaður í Rangárþingi ytra. Liðsstjóri var Elvar Eyvindsson, sveitarstjórnarmaður í Rangárþingi eystra. Af hálfu ITC voru ræðumennirnir Þórunn Pálmadóttir, Korpu, Ingibjörg Vigfúsdóttir, Hörpu, og Anna Kristín Kjartansdóttir, Jóru, sem jafnframt var valin ræðumaður kvöldsins. Liðsstjóri þeirra var Margrét Þórðardóttir, Stjörnu.