Flestir þeirra sem smitast af lifrarbólgu B neyta fíkniefna

Það sem af er þessu ári hefur orðið aukning á lifrarbólgu B hér á landi. Aukningin stafar fyrst og fremst af auknu smiti meðal Íslendinga. Níu af sautján Íslendingum (53%) tengjast fíkniefnaneyslu þar sem sprautur og nálar koma við sögu.

Í Farsóttarfréttum, sem landlæknisembættið gefur út, kemur fram að þar sem hálfur annar áratugur er liðinn frá síðasta faraldri lifrarbólgu B meðal fíkniefnaneytenda hér á landi, má búast við að stór hópur þeirra sem nú hafa smitast sé óvarinn af mótefnum gegn sjúkdóminum.

Hægt er að verjast þessum sjúkdómi með bólusetningu. Hingað til hefur ekki verið talið hagkvæmt að taka upp bólusetningu gegn lifrarbólgu B í ungbarnabólusetningunni hér á landi. Kanna þarf möguleika á bólusetningu til handa fíkniefnaneytendum sem ekki hafa smitast af lifrarbólgu B, samkvæmt Farsóttarfréttum.

Fjórir bæði smitaðir af HIV og lifrarbólgu B

Á þessu ári hafa greinst 12 einstaklingar með sýkingu af völdum HIV. Hjá sex þeirra virðast vera tengsl við fíkniefnaneyslu og fjórir þeirra eru bæði sýktir af HIV og lifrabólgu B. Rakning smitleiða, sem er erfið meðal fíkniefnaneytenda, stendur yfir um þessar mundir, samkvæmt Farsóttarfréttum.

Fyrr á þessu ári var vakin athygli á því í Farsóttafréttum að aukning hefði orðið á HIV-sýkingum hér á landi sem tengdist fíkniefnaneyslu. Í sumum tilfellum greindist samtímis smit af völdum lifrarbólgu B og HIV hjá fíkniefnaneytendum.

„Ef litið er til fjölda þeirra sem greinst hafa með lifrarbólgu B frá því greining hófst með mælingum á rannsóknarstofum hér á landi má sjá að stór faraldur af völdum bráðrar lifrarbólgu B gekk yfir á árunum 1989–1991. Sá faraldur tengdist mestmegnis fíkniefnaneyslu. Í lok síðustu aldar jókst hlutur innflytjenda meðal þeirra sem greindust með lifrarbólgu B. Flestir innflytjendanna voru með viðvarandi lifrarbólgu B, enda komu þeir frá svæðum í heiminum þar sem sjúkdómurinn er landlægur og smitast oftast frá móður til barns við fæðingu," samkvæmt Farsóttarfréttum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert