Íslenska ríkið sýknað af bótakröfu hjúkrunarfræðings á Kleppi

Frá Kleppspítalanum
Frá Kleppspítalanum mbl.is/ÞÖK

Íslenska ríkið var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknað af bótakröfu hjúkrunarfræðings sem starfaði á dagdeild fyrir geðfatlaða á Kleppi vegna afleiðinga árásar sem hún varð fyrir við vinnu sína hinn 19. júní 1997.

Árásin var gerð í árlegu skemmtiferðalagi með sjúklinga af Kleppsspítala. Sjúklingurinn hafði fyrr í ferðinni ráðist á annan starfsmann en þegar hann rauk upp á ný og reynt var að róa hann kýldi hann hjúkrunarfræðinginn í framan með þeim afleiðingum að hún lenti á bakinu og sitjanda og handleggir og fótleggir slengdust utan í sæti í rútunni. Jafnframt fékk hún höfuðhögg. Að sögn hjúkrunarfræðingsins fékk hún taugaáfall og glímdi við þunglyndi og reiði í kjölfarið. Þess vegna hafi hún sótt meðferð hjá sálfræðingi árum saman.

Ferðalag þetta hefur áður verið tilefni málaferla en annar starfsmaður geðdeildar höfðaði mál gegn íslenska ríkinu til viðurkenningar á fébótaábyrgð vegna tjóns sem hún varð fyrir vegna árásar sama sjúklings. Með þeim dómi var viðurkennt að stefndi, íslenska ríkið, bæri skaðabótaábyrgð á tjóni starfsmannsins vegna þess atviks er sami sjúklingur réðst á hana.

Voru kröfur hjúkrunarfræðingsins fyrir héraðsdómi byggðar á því að íslenska ríkið beri vinnuveitendaábyrgð á saknæmri hegðun, athöfnum og athafnaleysi, starfsmanna sinna, þ.e. á þeim starfsmönnum sem í fyrsta lagi báru ábyrgð á skipulagningu ferðarinnar, en henni hafi verið verulega ábótavant, og því að sjúklingurinn fór með í ferðalagið, og í öðru lagi hafi þeir brugðist ranglega og/eða alls ekki við þeim aðstæðum sem upp komu í umræddu ferðalagi og í kjölfar þess. Þar sé annars vegar átt við að hjúkrunar­framkvæmdastjóri hafi ekki brugðist við aðstæðum í samræmi við stöðu sína og skyldur en hins vegar að annar hjúkrunarfræðingur hafi, með hegðun sem ekki hafi samræmst faglegri ábyrgð hennar, valdið því að sjúklingurinn missti stjórn á sér og beitti bæði hana sjálfa og stefnanda ofbeldi. Hlutverk starfsmanna í ferðinni hafi verið að gæta hinna geðfötluðu og sérstaklega að fylgjast með andlegri heilsu þeirra.

Héraðsdómari féllst ekki á þetta og var íslenska ríkið því sýknað af kröfu hjúkrunarfræðingsins og málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 700.000 króna þóknun lögmanns hennar, að því er segir í niðurstöðu héraðsdóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert