Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, veitti Sigurbirni Einarssyni biskupi verðlaun Jónasar Hallgrímssonar nú í kvöld. Segir m.a. í rökstuðningi ráðgjafarnefndar verðlaunanna, að Sigurbjörn hafi um áratuga skeið verið í fararbroddi í trúarlegri, heimspekilegri og pólitískri umræðu hér á landi og lagt fram drjúgan skerf til viðgangs íslenskrar tungu og íslenskrar hugsunar með ritstörfum og kennimennsku.
„Það er sjálfgefið að þetta gleður mann að sjálfsögðu, og er mjög dýrmætt fyrir mig persónulega,“ sagði Sigurbjörn við Morgunblaðið.
Hann segist hafa miklar áhyggjur af þróun íslenskrar tungu, og telur enskuslettur alltof áberandi í málinu. Hann segir best að ráðast gegn vandanum í skólakerfinu. „Það er enginn vafi að skólarnir mættu efla íslenskukennsluna, og vanda yfirleitt allt sitt starf."
Verðlaunin eru veitt á degi íslenskrar tungu ár hvert, 16. nóvember, sem jafnframt er fæðingardagur Jónasar. Verðlaunin eru ein milljón króna og ritsafn Jónasar Hallgrímssonar í skinnbandi. Menningarsjóður Glitnis leggur til verðlaunin.
Menntamálaráðherra ákvað að veita einnig tvær viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu. Önnur er veitt Samtökum kvenna af erlendum uppruna og hina fær fréttastofa Útvarpsins. Segir ráðgjafarnefnd m.a. að Samtök kvenna af erlendum uppruna hafi frá stofnun tekið skýra afstöðu til tungumálsins sem talað er hér á landi og álitið það bæði skyldu og réttindi útlendinga sem hér hefja búskap að ná tökum á íslenskri tungu.
Þá segir nefndin að fréttastofa Útvarps sé í fararbroddi ljósvakamiðla þegar komi að því að færa atburði líðandi stundar í skýran og skiljanlegan búning. Þar hefur frá upphafi verið lögð áhersla á vandað mál, skýran flutning talmáls og lipra byggingu frásagna.
Viðurkenningarhafar fá listaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur og viðurkenningarskjal.