Sjúkraflugsmál Vestmannaeyja verði leyst

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur samþykkt ályktun þar sem skorað er á samgönguráðherra að leysa nú þegar þann hnút sem upp sé kominn varðandi sjúkraflugsmál Vestmannaeyja vegna bakvakta.

Frá 1. nóvember hefur ekki verið unnt að senda sjúklinga með sjúkraflugi milli kl. 19 á kvöldin og 7:30 á morgnana þar sem ekki er sólarhringsbakvakt á flugvellinum og Flugstoðir telja sig bundna af samningi við samgönguráðuneytið um að Vestmannaeyjaflugvöllur sé lokaður á þessum tíma.

Undanfarin ár hafa sjúkraflug frá Eyjum verið á bilinu 50-100 á ári. Bæjarstjórnin bendir á, að sólarhringsvakt sé á flugvöllunum í Keflavík, Reykjavík, Akureyri og Egilsstöðum.

„Vegna landfræðilegrar sérstöðu er staða sjúkraflugs sérstök að mörgu leyti hér í Vestmannaeyjum og út frá öryggissjónarmiðum er það óforsvaranlegt að mati bæjarstjórnar að einungis sé hægt að senda sjúklinga með sjúkraflugi að degi til," segir m.a. í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert