Sparperur gætu sparað 180 gígavattstundir á ári

Ef öll heimili á landinu skiptu út tíu glóperum fyrir sparperur gæti orkusparnaðurinn verið um 180 gígavattsstundir á ári. Það er samanlögð orkuframleiðsla Laxárvirkjana. Þetta er meðal þess sem heiðurshjónin Loftur Hreinsson og Ísafold Jökulsdóttir uppgötva í sjötta þætti umfjöllunar Orra Páls Ormarssonar og Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur um loftslagsmál sem birtist í Morgunblaðinu á sunnudag.

Fjölskyldan í Grafarvoginum kveikir þó á perunni varðandi fleira þegar hún ræðst í minniháttar framkvæmdir á heimilinu. Á rápi milli byggingavöruverslana uppgötvar hún sér til furðu að framboð á umhverfismerktum byggingavörum er af skornum skammti og að í þeim tilfellum sem slíkar vörur eru í boði vita starfsmenn verslananna ekki alltaf af þeim.

Loftur, Ísafold og börn þeirra komast líka að því að endingartími húsgagna og innréttinga skiptir meginmáli þegar hugað er að framkvæmdum á heimilinu því vara með stuttan líftíma eða hönnun sem úreldist hratt leiðir til meiri auðlindanotkunar og óþarfa kostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert